Saga PFÍ

Póstmannafélag Íslands var stofnað í Reykjavík hinn 26. mars 1919. Sögu íslenskra póstmanna má hins vegar rekja mun aftar eða til ársins 1776 þegar Kristján VII gaf út tilskipun um að komið skyldi á póstferðum innanlands á Íslandi. Má telja að fyrsti maðurinn til að gegna þessu embætti hafi verið Ari Guðmundsson er fór með póst frá Reykjarfirði við Ísafjarðardjúp suður um firði að Haga á Barðaströnd.

Það var engin tilviljun að póstmenn efndu til stofnunar félags vorið 1919. Verkalýðshreyfingin var í deiglu um þær mundir og félög höfðu verið stofnuð víða um land auk Alþýðusambandsins sem sett var á fót þremur árum fyrr. Þá höfðu Íslendingar nýlega öðlast fullveldi og almenn vakning ríkti á félagssviðinu. Tildrögin að stofnun PFÍ voru þau að þeir Matthías Þórðarson, Jón Jacobsson og Jón Þorkelsson sendu 20 póstmönnum boð um að koma saman til fundar á lestrarsal Landsbókasafnsins 2. febrúar árið 1919. Þar var ákveðið að efna til stofnfundar sem svo var haldinn í Pósthúsinu í Reykjavík 26. mars eins og áður sagði. Í fyrstu var félagið einfaldlega nefnt Póstmannafélagið en árið 1932 var núverandi nafn tekið upp. Þá voru félagsmenn orðnir 73 eða 66 karlar og 7 konur. 

Póstmannablaðið

Póstmannablaðið var sett á laggirnar árið 1932 og hefur það síðan verið málgagn félagsmanna. Póstmannafélag Íslands er í dag öflugt félag með um 900 félagsmenn. Meginhlutverk þess er nú sem fyrr að standa vörð um hagsmuni íslenskra póstmanna og sækja fyrir þeirra hönd fram til bættra kjara. Um leið og félagið annast þetta meginverkefni fyrir umbjóðendur sína er það félagslegur vettvangur í leik og starfi.

Mikilvæg stoð innan BSRB

Í áranna rás hefur Póstmannafélagi Íslands vaxið mjög fiskur um hrygg um leið og félagsmönnum hefur fjölgað. Félagið er nú ein styrkasta stoðin í BSRB og leiðandi afl innan launþegahreyfingarinnar. Félagsmenn PFÍ hafa á undanförnum árum gengið í gegnum miklar breytingar á starfsaðstöðu sinni og hafa félaginu bæst margir nýir félagsmenn en aðrir eldri horfið af vettvangi. Það sést meðal annars á því að á árinu 2001 er aðeins um fjórðungur félagsmanna enn í starfi af þeim sem störfuðu hjá Póst-og símamálastofnuninni sem lögð var niður 1. janúar 1997 með stofnun Pósts og síma hf. og ári síðar Íslandspósts hf. Það breytir ekki því að áfram hlýtur félagið að stuðla að félagslegu réttlæti og hlúa að mannlegum verðmætum.

Póstmannafélag Íslands er einn eigenda Félagsmiðstöðvarinnar að Grettisgötu 89 í Reykjavík og á það 13,05%

Póstmannafélagið – 100 ára afmælisrit