ORLOFSHÚS PÓSTMANNAFÉLAGSINS

Orlofshús sem félagsmenn Póstmannafélagsins hafa kost á að leigja eru á þremur stöðum á landinu; í Munaðarnesi, á Eiðum og á Illugastöðum. Félagið á íbúð í Reykjavík og á Akureyri.

Munaðarnes er í miðjum Borgarfirði í fallegu umhverfi með útsýni til Baulu, Skarðsheiðar, Langjökuls, Eiríksjökuls og fleira. Fallegar gönguleiðir eru frá bústöðum að Paradísarlaut, Laxfoss og Glanna. Sundstaðir og hægt að kaupa veiðileyfi í vötn í nágrenninu t.d. Hólmavatn, Langavatn og Hreðavatn. Þá er góður golfvöllur að Hamri skammt frá Borgarnesi og annar golfvöllur Glanni er við Bifröst. Dvalargestir í Munaðarnesi fá afslátt af vallargjöldum á golfvöllinn Glanna. Í Borgarfirði er auk náttúrufegurðar mikill fjöldi sögustaða til dæmis; Reykholt, Borg á Mýrum, Straumfjörður, Húsafell, Surtshellir og Hraunfossar.
Póstmannafélagið hefur til umráða þrjú hús í Munaðarnesi; eitt hús með þremur svefnherbergjum, tvö hús með tveimur svefnherbergjum.   Húsin eru með öllum nauðsynlegum búnaði og við þau er heitur pottur. Nánar um búnað og verð.

Nýja gaskúta er hægt að fá í Baulu skála gegn framvísun leigusamnings

Eiðum á Héraði um tuttugu kílómetrum frá Egilsstöðum eru tvö hús á vegum Póstmannafélagsins þau eru bæði með þremur svefnherbergjum og búnaður svipaður og í Munaðarnesi. Þar eru ekki heitir pottar en bátur er til afnota fyrir dvalargesti svo möguleiki er til veiða í Eiðavatni. Eiðar eru miðsvæðis á Austurlandi og því miklir möguleikar til að skoða sig um á svæðinu frá fjalli til fjöru. 2012 voru miklar endurbætur á húsunum á Eiðum bæði innanhús og utanhúss. Húsin leigjast yfir sumartímann og fram á haust. Húsin eru opnuð fyrir páskaleigu ef veður og færð leyfa. 

Orlofshúsin í Munaðarnesi og á Eiðum eru innan orlofsbyggða BSRB. 2009 tók gildi nýtt rekstrarform á orlofsbyggðunum, með því hefur félagið aukinn umráðarétt og ábyrgð á húsunum. Nú sjá orlofsnefnd og skrifstofa Póstmannafélagsins um útleigu á húsunum allt árið og því geta þeir sem hafa áhuga á að dvelja í húsunum yfir veturinn haft samband við skrifstofu PFÍ vegna leigu eða skrá leigu á orlofsvefnum frimann.

Í orlofsbyggðinni að Illugastöðum í Fnjóskadal á Póstmannafélagið orlofshús sem er 40km austan Akureyrar. Þar er gott að dvelja og heimsækja athyglisverða staði í nágrenni. Vaglaskógur er í 10km fjarlægð, Húsavík 75km, Hljóðaklettar 100km og Ásbyrgi 143km. Stutt er að Goðafossi og Aldeyjarfossi í Skjálfandafljóti. Margir skógar eru í Fnjóskadal.  Skemmtilegar gönguferðir t.d. yfir Bíldsárskarð, upp á Hálsahnjúk og yfir Gönguskarð.  Orlofshúsið að Illugastöðum er með tveimur svefnherbergjum og gistiaðstöðu fyrir 6 manns. Á veröndinni er heitur pottur auk þess sem sundlaug er á staðnum. Nánar um búnað og verð

Ásatún 28-306 á Akureyri er 4ja herbergja rúmgóð, velbúin íbúð. Gisting er fyrir 6 og aukadýnur. Sængur og koddar eru fyrir átta.      Nánar um búnað og verð

Stakkholt 2B í Reykjavík er 3ja herbergja velbúin íbúð með svefnstæði fyrir 4 og aukadýnur. Sængur og koddar eru fyrir átta. Rúmföt fylgja ekki. Nánar um búnað og verð

FLEIRA Í BOÐI.

Á orlofsvef PFÍ er hægt að kaupa;  http://www.pfi.is/orlofsvefur 

Útilegukortið 2023 10.000 kr. 

Veiðikortið 2023 4.000 kr. 

Hægt er að kaupa á skrifstofu PFÍ.

Icelandair gjafabréf. Tvö gjafabréf í senn á sex mánaða tímabili.

Verð gjafabréfs er 18.000 kr, verðgildi 25.000 kr.